Kjörnefnd Hveragerðisprestakalls valdi sr. Ninnu Sif Svavarsdóttur sem næsta sóknarprest en embættið var auglýst laust í október. Biskup skipar í embættið frá og með 1. desember til fimm ára.
Ninna Sif fæddist á Akranesi árið 1975, ólst þar upp og í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1995, guðfræðiprófi frá HÍ árið 2007 og MA-prófi í guðfræði 2014.
Hún hefur lagt gjörva hönd á margt og verið m.a. stundakennari við guðfræðideild HÍ og forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar. Hún var æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju 2009 og var vígð þangað til prestsþjónustu árið 2011. Ninna Sif var skipuð prestur í Selfossprestakalli árið 2015. Hún hefur verið formaður Prestafélags Íslands frá 2018.
Eiginmaður sr. Ninnu Sifjar er Daði Sævar Sólmundarson og eiga þau fjögur börn.
Í Hveragerðisprestakalli eru tvær sóknir; Hveragerðissókn og Kotstrandarsókn, með tæplega 2.700 íbúa og tvær kirkjur.