Níu sækja um starf byggðaþróunarfulltrúa

Hvolsvöllur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Rangárþing eystra, Rangárþing ytra og SASS auglýstu á dögunum starf byggðaþróunarfulltrúa. Alls sóttu 10 einstaklingar um stöðuna en ein umsókn var dregin til baka. Viðtöl við umsækjendur fara fram á næstu dögum.

Umsækjendurnir eru Ástvaldur Helgi Gylfason, Eiríkur Vilhelm Sigurðarson, Elínborg Telma Ágústsdóttir, Hrafnkell Guðnason, Nanna Fanney Björnsdóttir, Oddný Steina Valsdóttir, Stefán Friðrik Friðriksson, Þórdís Erla Ólafsdóttir Dýrfjörð og Þuríður Halldóra Aradóttir Braun.

Byggðaþróunarfulltrúi veitir ráðgjöf og handleiðslu á sviði atvinnu- og byggðaþróunar, vinnur að upplýsingaöflun, miðlun upplýsinga og svæðisbundnum verkefnum á sviði byggðaþróunar. Þá sinnir hann verkefnum í samráði við sveitarfélögin tvö og SASS og starfar með samstarfshópi samtakanna og öðrum byggðaþróunarfulltrúum á Suðurlandi.

Um er að ræða fullt starf og mun fulltrúinn hafa vinnuaðstöðu í ráðhúsinu á Hvolsvelli en í auglýsingu um starfið kemur fram að æskilegt sé að viðkomandi hafi fasta búsetu í Rangárvallasýslu.

Fyrri greinSjötta tap Ægis í röð
Næsta greinSelfoss í 2. sæti á TM mótinu