Stjórnvöld hafa ákveðið að fjármagna ráðningu níu sumarstarfsmanna til að sinna upplýsingagjöf til ferðamanna í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum.
Markaðsstofa Suðurlands fær einn starfsmann til markaðsetningar, Rangárþing eystra og Hornafjörður fá hvort sinn starfsmanninn og Skaftárhreppur tvo starfsmenn til upplýsingaveitu við ferðamál. Einnig fær Mýrdalshreppur fjóra starfsmenn fyrir hönd Kötluseturs og Kötlu Geopark.
Vinnumálastofnun og Iðnaðarráðuneyti skipta með sér kostnaði við störfin og nemur hlutur ráðuneytisins 5,4 milljónum króna.
Ákveðið var að ráða þessa starfsmenn vegna reynslunnar af eldgosinu í Eyjafjallajökli að því er segir í fréttatilkynningu frá Iðnaðarráðuneytinu.