Fyrir utan stóra aðgerð á Breiðamerkurjökli nú um helgina hafa lögreglumenn á Suðurlandi haft í ýmis önnur horn að líta síðan fyrir helgi.
Frá því á föstudag hafa 45 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur og sá sem ók hraðast var á 136 km/klst hraða á Suðurlandsvegi í Mýrdalshreppi.
Fimm ökumenn voru kærðir fyrir akstur án tilskilinna ökuréttinda og þrír voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna, þar af tveir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Níu umferðarslys voru í embættinu án teljandi slysa á fólki. Á föstudag gekk á með hvassviðri í vesturhluta embættisins og má tengja þrjú af þessum umferðarslysum til hvassviðrisins. Tvö hjólhýsi í eftirdragi bifreiða fuku á Lyngdalsheiði, auk þess sem húsbíll fauk útaf efst í Kömbunum. Í ljósi þessa ítrekar lögreglan þau tilmæli til ökumanna, að fylgjast vel með vindaspám áður en lagt er í ferðalög með ökutæki sem taka mikinn vind á sig.