Njörður leiðir Samfylkinguna

Njörður Sigurðsson, varabæjarfulltrúi A-listans mun leiða lista Samfylkingarinnar í Hveragerði í sveitarstjórnarkosningunum í maí. A-listinn mun ekki bjóða fram að þessu sinni.

Róbert Hlöðversson, bæjarfulltrúi A-listans segist ekki taka sæti á lista Samfylkingarinnar, hann hafi sagt sig úr félaginu ásamt eiginkonu sinni, sem var formaður félagsins, þegar framhjá þeim var gengið við ákvörðun um uppstillingu framboðs á vegum þess.

Njörður, sem skipaði þriðja sæti A-listans við síðustu kosningar, sagði í samtali við Sunnlenska að verið væri að klára samsetningu listans þessa dagana.

Eftir því sem heimildir herma dvína líkur á framboði óflokksbundinna, og einnig Bjartrar framtíðar.

Herdís Þórðardóttir fyrrum bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins segir framboðsmál til skoðunar hjá flokknum í Hveragerði. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, sem skipaði 2. sæti A-listans í síðustu kosningum gefur ekki kost á sér að þessu sinni.

Sem stendur hafa því einungis Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn tilkynnt um framboð í vor.

Fyrri greinSóttu gönguhóp að Fjallabaki
Næsta greinBannað að rukka inn á Geysissvæðið