Sunnlenska.is fékk á dögunum sendar skemmtilegar myndir sem Karl G. Smith tók á Selfossi árið 1968 eða 1969. Þær eru úr miðbæ Selfoss og sýna meðal annars Tryggvaskála og Hafnarsjoppuna.
Þessar myndir hafa hvergi sést opinberlega áður en þær komu ásamt mörgum öðrum uppúr geymslu þegar Karl lét skanna fyrir sig myndir úr litskyggnumyndasafni sínu.
Að sögn Karls er fullorðna konan með hvítu húfuna á myndinni af Hótel Tryggvaskála amma hans, Soffía Sigurðardóttir (f. á Stokkseyri 1890, d. í Reykjavík 1984).
Á myndinni sem tekin er fyrir utan Hafnarsjoppuna er X-1700, líklegast Ford Taunus í eigu Lárusar Jóhannssonar á Selfossi fremst á myndinni. Fyrir utan Hótel Tryggvaskála er bensíndæla frá olíufyrirtækinu BP en Höfn seldi bensín fyrir Skeljung hf.
Gaman væri ef þeir sem þekkja til myndu senda línu á netfrett@sunnlenska.is ef þeir þekkja fólk eða bíla á myndunum.
Hótel Tryggvaskáli á Selfossi, líklega árið 1968. Ljósmynd/Karl G. Smith