Í sumar munu fjórir Íslendingar leggja upp í róður á sérstökum úthafsróðrarbát yfir Norður-Atlantshafið frá Noregi til Norður Ameríku.
Einn fjórmenninganna er Selfyssingurinn Einar Örn Sigurdórsson en hinir þrír eru Eyþór Eðvarðsson, Kjartan Jakob Hauksson og Svanur Wilcox. Leiðin sem þeir eiga fyrir höndum er hátt í 5.000 kílómetrar.
Róið verður milli landa samkvæmt reglum Ocean Rowing Society og Guinness World Records þannig að róðurinn verður óstuddur og án fylgdarbáta. Hyggst áhöfnin þannig setja heimsmet í úthafsróðri.
Ýtt verður úr vör á Þjóðhátíðardegi Norðmanna, þann 17. maí, frá Kristianssand. Þaðan verður róið í áföngum til Íslands, en síðan áfram til Norður-Ameríku næsta sumar. Undirbúningur gengur vel, og er úthafsróðrarbáturinn sérsmíðaði væntanlegur til landsinsmeð Helgafelli í næstu viku.
Öryggis verður gætt í hvívetna og ráðning varaáhafnar er einmitt öryggisatriði, til að tryggja að ekki þurfi að hætta við verkefnið ef einn eða fleiri áhafnarmeðlima forfallast.
Viðkomandi þurfa að vera í mjög góðu formi líkamlega nú þegar og reiðubúnir til að taka þátt í sértækum róðraræfingum innanhúss og á Faxaflóa í vor. Síðan mega þeir eiga von á því að þurfa að hlaupa í skarðið með stuttum fyrirvara.
Mánudaginn 28. janúar verður leiðangurinn kynntur þeim sem hafa áhuga á að komast í varaáhöfn og þeim gefinn kostur á að sækja um. Fundurinn verður haldinn í húsnæði Samskipa við Kjalarvog og hefst kl 20:00. Samskip er helsti styrktaraðili leiðangursins. Boðið verður upp á léttar veitingar.
Frekari upplýsingar veitir Eyþór Eðvarðsson í síma 892-1987.