Vefmyndavél hefur verið sett upp í Hestheimum í Ásahreppi þar sem hægt er að fylgjast með norðurljósunum, stjörnuhimninum og Heklu, í rauntíma beint frá Hestheimum.
Um er að ræða samvinnuverkefni Hestheima og Dr. Miquel Serra-Ricart, stjörnufræðings frá Astrophysics Institute of the Canaries.
Markmiðið er að fylgjast með norðurljósunum, Heklu og stjörnunum og fer útsending frá vélinni fram á sjónvarpsstöðinni SKY-LIVE.TV.
Hestheimar urðu fyrir valinu vegna frábærrar staðsetningar, þar sem Suðurlandið og Heklan sjást vel frá bænum og segir Lea Helga Ólafsdóttir í Hestheimum að þau séu afar stolt af því að taka þátt í þessu verkefni. Um er að ræða ársverkefni unnið með færustu stjörnufræðingum heims.