Nóróveira staðfest hjá sex einstaklingum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Samkvæmt tilkynningum sem Heilbrigðiseftirliti Suðurlands hefur borist hafa minnst sextíu manns sem gistu á Rangárvöllum á síðustu vikum veikst af iðrasýkingu.

Þó er ljóst að fleiri veiktust þar sem ekki liggja fyrir tæmandi upplýsingar um alla ferðamenn, sérstaklega þá sem búsettir eru erlendis.

Í upphafi var talið að veikindin stöfuðu af E.coli mengun í neysluvatni hjá ferðaþjónustunni á Rjúpnavöllum en mælingar sýndu lítið magn af E.coli gerlum í vatninu.

Nú hefur sýkla- og veirufræðideild Landspítalans staðfest að nóróveira greindist hjá að minnsta kosti sex einstaklingum. Hópsýkingar af völdum nóróveira eru vel þekktar þar sem hópar fólks koma saman. Smitleiðir eru margar og getur veiran smitast beint manna á milli við snertingu, en önnur algeng smitleið er með fæðu og neysluvatni.

Heilbrigðiseftirlitið hefur séð um sýnatökur á neysluvatni og meðal annars tekið sýni á tveimur stöðum til viðbótar á Rangárvöllum. Veikindi komu upp víðar á svæðinu en á Rjúpnavöllum og er leitast við að staðsetja smitið með frekari sýnatöku. Sýni verða send til greiningar á rannsóknarstofu erlendis til að kanna hvort nóróveirur hafi borist í vatnsból.

Fyrri greinGrímsævintýri um næstu helgi
Næsta greinGrótta lagði Selfoss á Ragnarsmótinu