Annar áfangi Stekkjaskóla á Selfossi var tekinn í notkun í dag. Með þessum áfanga er grunnskólinn kominn í 8.000 fermetra og í dag eru tæplega 300 nemendur í skólanum.
„Það er alveg æðisleg tilfinning að það sé búið að taka annan áfanga skólans í notkun. Við erum búin að bíða lengi eftir þessu og við erum alveg afskaplega glöð með að það sé komið að þessu,“ segir Hilmar Björgvinsson, skólastjóri Stekkjaskóla, í samtali við sunnlenska.is.
Skemmtilegt að fá 1. bekk inn
Hilmar segir að þetta sé sérstaklega gleðilegt gagnvart 1. bekk sem var áður í færanlegum útistofum. „Nú er hann kominn með heimasvæði í aðalbyggingu skólans og miðstigið er allt komið yfir í nýjasta hluta hússins. Fyrsti bekkur hefur verið í list- og verkgreinum, íþróttum, hádegismat og fleira í aðalbyggingunni. Stofurnar úti eru mjög fínar en það er miklu skemmtilegra að fá alla nemendur undir eitt þak. Nú erum við orðin ein heild og það skiptir öllu máli.“
„Mesta breytingin er fyrir 1. bekk, að komast hingað inn og fá sitt heimasvæði. Síðan er þetta mikil breyting fyrir 6. og 7. bekk því að nú eru þessir árgangar komnir með sitt heimasvæði en áður voru þeir í frístundarrýmunum, þar sem var mjög þröngt um þá. Núna eru allir nemendur skólans komnir með frábær kennslusvæði.“
Náttúrufræðistofa með gróðurskála
Annar áfangi skólans var afhentur Sveitarfélaginu Árborg í vikunni fyrir jólaleyfi og var það samkvæmt áætlun.
„Það var frábært að geta flutt fyrir jól og koma sér fyrir. Svo höfðu starfsmenn starfsdag síðastliðinn föstudag til að koma sér almennilega fyrir og undirbúa komu nemenda inn á ný svæði.“
„Við erum að fá ákaflega vandað skólahúsnæði sem uppfyllir allar kröfur á nútíma skólahúsnæði. Við verðum með flott bókasafn sem einnig er upplýsingaver, við verðum með flottustu náttúrufræðistofu landsins með gróðurskála, flotta myndmenntastofu, hreyfirými, félagsaðstöðu fyrir nemendur, nýsköpunarstofu og aðstöðu fyrir hjúkrunarfræðing og náms- og starfsráðgjafa. Okkur vantar fullt af bókum á bókasafnið, mest barna- og unglingabækur. Við óskum hér með eftir bókum en þeim má koma til ritara skólans,“ segir Hilmar kátur að lokum.