Nú má vargurinn vara sig

Magnús Páll Sigurjónsson, lög­reglu­maður, hefur sótt um leyfi til að skjóta vargfugl utan þéttbýlis í sveitarfélaginu Árborg.

„Ég kem frá Vest­manna­eyjum og þar er hefð fyrir að nokkrir skotveiðimenn hafi leyfi bæjaryfirvalda til að eyða vargfugli – og æfa sig um leið,“ segir Magnús.

Magnús er búsettur í Furugrund og verður oft var við vargfugl. Um dag­inn taldi hann fjórtán máva uppi á húsþaki hjá sér.

Jóhannes Ólafsson, eigandi Mein­dýravarna Suðurlands, hefur sótt um leyfi til að fæla máva með byssum frá umhleðslustöð Sorp­stöðv­ar Suðurlands við Selfoss­flugvöll. Guðmundur Tryggvi Ólafsson, framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Suður­lands, segir að umsókn Meindýravarna Suðurlands sé liður í markvissum aðgerðum gegn varg­fugli við gáma­svæðið.

„Mávarnir í grennd við gáma­svæðið eru hluti af stærra vandamáli; fjölgun þeirra almennt á þessum slóðum,“ segir Guð­mundur. „Best væri að finna út hvar hann héldi sig og eyða eggjun­um.“

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmda­stjóri sveitarfélagsins, sagði í samtali við Sunnlenska að leyfi beggja aðila væru til skoðunar og ekki meira um málið að segja að sinni.

Fyrri greinRangárnar komnar á toppinn
Næsta greinStórsýning viðbragðsaðila í Hveragerði