Magnús Páll Sigurjónsson, lögreglumaður, hefur sótt um leyfi til að skjóta vargfugl utan þéttbýlis í sveitarfélaginu Árborg.
„Ég kem frá Vestmannaeyjum og þar er hefð fyrir að nokkrir skotveiðimenn hafi leyfi bæjaryfirvalda til að eyða vargfugli – og æfa sig um leið,“ segir Magnús.
Magnús er búsettur í Furugrund og verður oft var við vargfugl. Um daginn taldi hann fjórtán máva uppi á húsþaki hjá sér.
Jóhannes Ólafsson, eigandi Meindýravarna Suðurlands, hefur sótt um leyfi til að fæla máva með byssum frá umhleðslustöð Sorpstöðvar Suðurlands við Selfossflugvöll. Guðmundur Tryggvi Ólafsson, framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Suðurlands, segir að umsókn Meindýravarna Suðurlands sé liður í markvissum aðgerðum gegn vargfugli við gámasvæðið.
„Mávarnir í grennd við gámasvæðið eru hluti af stærra vandamáli; fjölgun þeirra almennt á þessum slóðum,“ segir Guðmundur. „Best væri að finna út hvar hann héldi sig og eyða eggjunum.“
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins, sagði í samtali við Sunnlenska að leyfi beggja aðila væru til skoðunar og ekki meira um málið að segja að sinni.