Mál og menning – Forlagið gaf á dögunum út bókina Náttúruvá – ógnir, varnir og viðbrögð, eftir Ara Trausta Guðmundsson, jarðvísindamann, rithöfund og fyrrum þingmann Suðurkjördæmis.
Margvísleg náttúruvá hefur fylgt landsmönnum frá upphafi en undanfarið hefur atburðum heldur fjölgað, m.a. samfara áhrifum loftslagsbreytinga og auknum ágangi á landið. Eldgos, jarðskjálftar, skriðuföll, flóð og gróðureldar hafa verið efst á baugi síðustu árin og höggin stundum fallið óþarflega nærri okkur. Bókin geymir ítarlegan fróðleik um flestar hættur sem okkur stafar af náttúrunni, fjallað er um forvarnir, ásamt skipulagi og uppbyggingu náttúruvarna.
Sífellt meiri umræða um náttúruvá
Ari Trausti býr að fjölþættri, gagnlegri þekkingu og reynslu þegar fjallað er um jafn vandmeðfarið efni og náttúruvá. Hann hefur unnið að þessari bók undanfarin tvö ár, meðfram öðrum verkefnum.
„Loftslagsbreytingar kalla fram fleiri alvarlega váatburði en að meðaltali síðasta árhundrað eða svo. Nýtt óróatímabil á Reykjanesskaga og til dæmis erfið skakkaföll vegna skriðufalla vekja sífellt meiri umræðu um náttúruvá. Hraðar tækniframfarir og stafræna byltingin auðvelda forvarnir, rannsóknir og ýmis viðbrögð. Þetta litar mjög umræðu í miðlunum og í stjórnkerfinu,“ segir Ari Trausti.
Ég vil skipta mér af þessum málefnum
„Góður árangur vísindastofnana við að útskýra atburði, við að ákvarða forvarnir, opinbera rannsóknir og við spá atburðum er augljós og ýtir undir betri og meiri umræðu sem aftur ýtir undir að aukið fjármagn er sett til starfans við að mæta duttlungum náttúrunnar í landi sem er jafn fjölbreytt að náttúru og Ísland,“ segir Ari Trausti ennfremur og bætir við að vandinn við alvarlega náttúruatburði kalli á aukna menntun, sem gagnast viðbrögðum við náttúruvá og enn fremur á meiri almenningsfræðslu um hana.
„Háværrar raddir eru uppi um vandaðri skipulagningu byggða og mannvirkja með meiri áherslu á hvar og hvernig náttúruvá getur ógnað okkur. Ég vil skipta mér af þessum málefnum og hef lengi tekið þátt í umræðunni, unnið við kennslu í raunvísindum, frætt almenning í áratugi um náttúru og umhverfi, bæði í útvarpi og sjónvarpi og með greina- og bókaskrifum. Verið raunvísindamiðlari en líka komið að málefnum náttúruvár sem þingmaður þannig að ég þekki umhverfi málaflokksins ágætlega,“ segir Ari Trausti að lokum.
Bókin er 190 blaðsíður, myndskreytt með fjölda mynda, og að sögn Ara Trausta er ensk útgáfa væntanleg í vetrarbyrjun.