Ný borhola á Fossnesi tekin í notkun

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skrúfar frá og hleypir vatninu úr holunni inn á kerfið. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Ný borhola Selfossveitna og dæluhús á Fossnesi norðan við Ölfusá var vígð í gær. Holan, sem nefnist SE-40, eykur afköst Selfossveitna um 10 prósent.

„Þetta er mikill gleðidagur. Leit að heitu vatni hefur staðið yfir af miklum krafti seinustu tvö ár. Það er ekki sjálfgefið að finna heitt vatn og leitin að því getur verið mjög tímafrek og kostnaðarsöm og skilar ekki alltaf árangri,“ sagði Sveinn Ægir Birgisson, formaður bæjarráðs og eigna- og veitunefndar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

Sveinn Ægir ávarpar samkomuna við dæluhúsið í gær. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Orkuöflun hvergi nærri lokið
„Uppbyggingin í sveitarfélaginu hefur verið mikil og það er krefjandi fyrir Selfossveitur að mæta þeim áskorunum. Þessi nýja hola er gríðarlega mikilvæg þar sem við erum að tala um 30 sekúndulítra af 85 gráðu heitu vatni og aukningu á afköstum Selfossveitna um tíu prósent,“ segir Sveinn Ægir og bætir við að það sé hagkvæmt að heitt vatn finnist innanbæjar.

„Við þurfum ekki að leggja langa lagnaleið til þess að koma vatninu inn á kerfið. Þetta er fyrsta holan sem við erum að virkja núna en við erum búin að finna vatn á tveimur öðrum stöðum innanbæjar á Selfossi, við Selfossveg og Sóltún. Rannsóknarleit og orkuöflun er samt hvergi nærri lokið enda má aldrei hætta orkuöflun í sveitarfélagi sem er í miklum uppvexti. Leitin heldur áfram næstu árin auk þess sem nýju holurnar verða virkjaðar inn á kerfið,“ sagði Sveinn Ægir að lokum.

Sveinn Ægir, Guðlaugur Þór, Bragi Bjarnason bæjarstjóri og Álfheiður Eymarsdóttir, varaformaður eigna- og veitunefndar. Ljósmynd/Jóhanna Petersen
Fyrri greinVöfflukaffið á langa og virðingarverða sögu
Næsta greinHinn látni var frá Katar