Ný brú yfir Eldvatn komin á kortið

Vegagerðin hefur kynnt framkvæmdir á Skaftártunguvegi þar sem fyrirhugað er að byggja nýja brú yfir Eldvatn, skammt neðan núverandi brúar.

Fyrirhugað er að byggja nýja 78 m langa brú og verður hún tengd núverandi vegakerfi með stuttum vegum beggja vegna. Fyrirhuguð framkvæmd er samtals um 920 m löng.

Nýja brúin verður í einu hafi, stálbitabrú með hallandi stálbogum. Brúin verður tvíbreið og lega hennar hönnuð fyrir 90 km/klst hámarkshraða.

Kanna þarf matsskyldu framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem um er að ræða framkvæmd utan þéttbýlis á verndarsvæði. Fyrirhuguð framkvæmd liggur á stuttum kafla um Eldhraun sem eru jarðminjar sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að hún telji að framkvæmdin hafi ekki í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfið vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Framkvæmdum verður hagað þannig að neikvæð áhrif þeirra verði sem minnst, mótvægisaðgerðum verður beitt og haft samráð við ýmsa aðila.


Þrívíddarmynd af nýrri brú og vegtengingu Teikning/Guðmundur Valur Guðmundsson


Staðsetning fyrirhugaðrar framkvæmdar teiknuð gróflega inn á ljósmynd með grárri strikalínu. Ljósmynd/Snorri Zophaniasson, Veðurstofan 2015

Fyrri greinKaupmenn ánægðir með jólaverslunina
Næsta greinMagdalena áfram á Selfossi