Síðastliðinn föstudag var formlega vígð ný göngubrú yfir Hólmsá við Fláajökul í Austur-Skaftafellssýslu en verkefnið var styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Verkefnið er hluti af uppbyggingu nýrrar gönguleiðar sem hefur verið nefnd Jöklaleið eða Jöklavegur og mun liggja meðfram öllum suðurjaðri Vatnajökuls. Leiðin frá Fláajökli að Hjallanesi er annar áfangi þeirrar leiðar. Ríki Vatnajökuls, ferðaþjónustuklasi í Austur-Skaftafellssýslu hefur yfirumsjón með verkefninu.
Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu höfðu frumkvæði að verkefninu, einkum Ferðaþjónustan Hólmi og Ferðaþjónusta bænda Brunnhóli í samvinnu við Sveitarfélagið Hornafjörð.
Aukin tækifæri til útivistar og atvinnusköpunar
Göngubrúin er hengibrú yfir Hólmsá og opnar hún aðgengi að Fláajökli og að austurhluta Heinabergssvæðis sem eru hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Um árabil var greið aðkomuleið að Fláajökli vestanverðum en hún rofnaði þegar jökullinn hopaði. Með bættu aðgengi sem bygging göngubrúar yfir Hólmsá skapar, aukast bæði tækifæri til útivistar og atvinnusköpunar innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Með brúnni opnast greið leið göngufólks inn á mjög verðmætt svæði, þar sem finna má óspilltar jökulminjar, bergmyndanir og áhugaverða gróðurframvindu.
Síðastliðinn áratug hefur margvísleg uppbygging átt sér stað á svæðinu við Fláajökul, svo sem merking gönguleiða, gerð og uppbygging fræðsluskilta og salernisaðstaða, umhverfisvæn og sú fyrsta slíkrar gerðar á Íslandi. Svæðið er orðið vinsæll áfangastaður og hefur aðsókn vaxið jafnt og þétt.
Veittur hefur verið styrkur til að stika og merkja með fræðsluskiltum gönguleið frá brúnni yfir að ánni Kolgrímu og mun verða ráðist í þann undirbúning í sumar. Annar hluti Jöklaleiðarinnar hefur þegar verið stikaður, en það er mjög skemmtileg gönguleið sem liggur á milli Jökulsárlóns og Fjallsárlóns. Lagning gönguleiðarinnar mun stórauka möguleika á útivist og gönguferðum í Sveitarfélaginu Hornafirði og mun verða lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu.