Ný hárgreiðslustofa, Bylgjur og bartar, opnar á Selfossi í dag. Arna Árnadóttir og sonur hennar Árni Magnússon reka stofuna.
„Árni var að koma út úr skólanum og vantaði samning og það er ekkert framboð á þeim núna. Þannig að mamma stökk bara af stað og reddaði málunum,” segir Arna og hlær, en hún hefur haft hendur í hári Sunnlendinga síðustu tuttugu ár. Auk þeirra mun Elfa Ósk Guðlaugsdóttir, hárgreiðslunemi, vinna á stofunni.
Bylgjur og bartar eru til húsa á Eyravegi 31 og hefur húsið verið tekið algjörlega í gegn en þar var fyrir nokkrum árum rútuverkstæði Sérleyfisbíla Selfoss.
„Þetta er mjög heimilislegt hjá okkur enda langaði okkur til að gera eitthvað öðruvísi. Öll húsgögn og innréttingar eru notaðar og speglarnir það eina sem er glænýtt,” sagði Arna í samtali við sunnlenska.is í morgun.
„Við erum mjög spennt fyrir þessu. Þetta er öðruvísi stofa, hér er allt notað og við bjóðum lægra verð en aðrir auk þess sem við leggjum áherslu á að fólk geti fengið gott með kaffinu og haft það kósí á meðan það bíður í sófanum.”
Auk þess að græja bylgjur og barta í sunnlenska lokka þá er útibú frá Gónhól á Eyrarbakka á hárgreiðslustofunni. „Já, Gónhóll er í útrás og við erum með litla krambúð með vinsælum og skemmtilegum tækifærisgjöfum sem eru sérinnfluttar frá Svíþjóð. Svo erum við auðvitað með góðar hárvörur frá Milk Shake og enginn býður ódýrara d:fi hárgel en við,” sagði Arna að lokum.