Heilbrigðisráðherra stendur fyrir opnum fundi um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þann 14. ágúst.
Fjallað verður um hvað felst í stefnunni, hvaða breytingar hún er líkleg til að hafa í för með sér og hvers vegna hún skiptir svo miklu máli, hvort heldur í þéttbýli eða í dreifðari byggðum landsins.
Fundurinn verður haldinn í fundarsal Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi kl. 17–19.
Heilbrigðisstefna – stefna fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi 3. júní síðastliðinn. Stefnan verður kynnt á opnum fundum í öllum heilbrigðisumdæmum landsins og hafa tveir slíkir fundir þegar verið haldnir, annar á Norðurlandi og hinn á Vestfjörðum.
„Heilbrigðiskerfið er flókið og margþætt, sérhæfing mikil og þjónustuveitendur margir. Verkefni heilbrigðisyfirvalda í samstarfi við stofnanir heilbrigðiskerfisins, er að skapa heildrænt kerfi sem tryggir sjúklingum samfellda þjónustu á réttu þjónustustigi þar sem saman fara gæði, öryggi, skilvirkni og hagkvæmni. Um þetta snýst heilbrigðisstefnan,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra en fundurinn á Selfossi hefst með erindi hennar.
Fundurinn á Selfossi hefst á því að ráðherra kynnir stefnuna og síðan fjallar Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, um sýn forstjóra og María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands um áhrif heilbrigðisstefnunnar á hlutverk og starfsemi sjúkratrygginga.
Að því loknu verða pallborðsumræður en auk Svandísar, Herdísar og Maríu taka þátt í pallborðinu Eva Björk Harðardóttir formaður SASS og Ásthildur Knútsdóttir skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu. FUndarstjóri er Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði.