Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt vilyrði fyrir úthlutun miðbæjarsvæðisins á Selfossi til Sigtúns þróunarfélags ehf um uppbyggingu alhliða miðbæjarstarfsemi og ferðaþjónustu.
Miðað er við að byggð í miðbænum verði lágreist en þétt, í samræmi við þá húsagerð sem er að finna í götum kringum miðbæjarsvæðið. Öll húsin sem reist verða, um 25 hús, munu eiga sér sögulegar fyrirmyndir – eru horfin hús með sögu sem er táknræn fyrir tiltekið tímabil, atvinnuhætti, listir, mat og menningu í Árborg, á Suðurlandi og jafnvel víðar. Þess er vænst að verkefnið skapi fjölda nýrra starfa í sveitarfélaginu bæði á byggingartíma og eftir að sterfsemi hefst.
Húsin auglýst til leigu
Hinni nýju byggð er ætlað að gegna eðlilegu miðbæjarhlutverki fyrir íbúa Árborgar, en skapa jafnframt með aðdráttarafli sínu áhugaverð ný tækifæri fyrir sveitarfélagið og ferðaþjónustuna. Gert er ráð fyrir að húsin í miðbænum verði leigð út til áhugasamra aðila fyrir margskonar starfsemi og í miðbæjarkjarnanum verði sambland af þjónustufyrirtækjum, gisti- og veitingastöðum, verslunum, handverksstarfsemi, íbúðum og fleiru. Hús og einstök rými verða leigð út í langtímaleigu og eru viðræður þegar hafnar við áhugasama aðila.
Viðkomustaður ferðamanna
Miðbæjarsvæðið, sem blasir við þegar komið er yfir Ölfusárbrú inn í bæinn, hefur staðið autt um árabil. Hugmyndir Sigtúns miða við að skapa heildstætt svipmót líflegs miðbæjarkjarna þar sem alhliða iðja og afþreying geri Selfoss fært að taka með kraftmeiri hætti en áður þátt í ferðaþjónustunni í landinu. Mörg hundruð þúsunda ferðamanna eiga árlega leið um bæinn án þess að staldra þar við. Að baki þróunarverkefninu býr sú trú að með táknrænum og aðlaðandi miðbæ geti Selfoss tekið sér stöðu sem mikilvægur viðkomustaður ferðamanna á Íslandi.
Söguhús og matarmenning
Hluti af miðbænum verður nýstárleg sögusýning í torfbæ og tengdum byggingum og hefur ITF I, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, lýst sig reiðubúinn til að vinna með aðstandendum mat á hagkvæmni fjárfestingar í sýningarhluta verkefnisins.
Við uppbyggingu sýningahaldsins verður lögð áhersla á daglegt líf og byggingarsögu á Suðurlandi frá landnámi til dagsins í dag, allt frá smæstu kotbýlum til minnisvarða um reisulegar dómkirkjur miðalda.
Sagan verður sögð meðal annars með því að veita gestum innsýn í þróun matargerðar og matarhefða með tilheyrandi bragðprófunum, enda Suðurlandið mikil matarkista. Sýningasvæði við torfbæ og minnisvarða um dómkirkju tengjast við bæjargarðinn, Sigtúnsgarð.
Stefnt er að því að samhliða uppbyggingunni verði Sigtúnsgarðurinn endurhannaður og við það miðað sérstaklega að hann henti vel til útivistar fyrir fjölskyldur og fjölmennar bæjarhátíðir.
Vilyrði bæjaráðsins fyrir úthlutun svæðisins er til sex mánaða og á þeim tíma verður unnið að frekari þróun hugmyndanna, deiliskipulagi og fjármögnun. Miðað er við að öllum framkvæmdum verði lokið vorið 2017.
Fjárfestar og aðrir áhugamenn standa að baki þróunarfélaginu undir forystu Selfyssinganna Leós Árnasonar og Guðjóns Arngrímssonar. Hönnun annast Batteríið Arktektar og Snorri Freyr Hilmarsson hönnuður og formaður Torfuasamtakanna. Verkfræðiráðgjöf og verkefnisstjórn er í höndum VSÓ Ráðgjafar.
Opið hús í Tryggvaskála
Opið hús verður í Tryggvaskála á Selfossi laugardaginn 21. mars frá kl 11:00-17:00. Þar liggja frammi uppdrættir og teikningar og gefst bæjarbúum og öðrum áhugasömum kostur á að ræða við forsvarsmenn verkefnisins og kynna sér hugmyndirnar nánar.
Sjá einnig www.midbaerselfoss.is