Stefnt er að því að byggja um 60 til 65 íbúðir í nýrri íbúðarbyggð í Þingborg í Flóahreppi og er vonast til að vinna við gatnagerð og fráveitu geti hafist á þessu ári.
„Þessa dagana er verið að vinna frumhönnun gatnagerðar og fráveitu og er það Efla sem sér um það verkefni fyrir okkur. Íbúðarbyggðin tengist við vatnsveitu Flóahrepps og ljósleiðari verður á vegum Flóaljóss en stefnt er að samstarfi við Hitaveitu Hraungerðishrepps um hitaveitu fyrir svæðið,“ segir Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, í samtali við sunnlenska.is.
Fyrsta lóðaúthlutunin á vegum sveitarfélagsins
Ef allt gengur upp varðandi framkvæmdir við fráveitu og gatnagerð gæti úthlutun lóða orðið fyrir lok árs í ár en byggðin verður blanda af rað-, par- og einbýlishúsum.
„Við erum að vinna fyrstu drög að úthlutunarreglum fyrir Flóahrepp en þær voru ekki til hér í hreppnum, enda er þetta í fyrsta skipti sem verið er að úthluta íbúðarlóðum á vegum sveitarfélagsins,“ segir Hulda og bætir við að um mjög spennandi verkefni sé að ræða.
„Staðsetningin er frábær enda leikskóli við hliðina á byggðinni, skólaakstur í okkar öfluga grunnskóla, stutt í alla þjónustu á Selfossi og svo falleg náttúra allt í kring.“
Nafnasamkeppni um nýjar götur
Í gildandi deiliskipulagi íbúðarbyggðar í Þingborg eru tvær götur sem eru skilgreindar sem gata A og gata B og hefur sveitarstjórn Flóahrepps samþykkt að efna til samkeppni um nafn á þessum tveimur götum. Tillögum er hægt að skila inn fyrir föstudaginn 28. mars og mun sveitarstjórn velja nöfn á göturnar útfrá innsendum tillögum á fundi sveitarstjórnar sínum þann 1. apríl næstkomandi.
