Ný ísgerð, Fossís, er að hefja framleiðslu á bænum Suður-Fossi í Mýrdal. Ísinn verður seldur til gistiheimila í nágrenninu og jafnvel í ísbíl í Reynisfjöru.
Það eru þau Hjördís Rut Jónsdóttir og Ingi Már Björnsson sem eiga ísgerðina og segir Hjördís að framleiðsla geti jafnvel hafist um næstu mánaðarmót.
,,Við erum búin að fjárfesta í vél sem gerilsneyðir og framleiðir ís. Við höfum lengi verið að velta þessu fyrir okkur enda verið með umframframleiðslu af mjólk,” sagði Hjördís.
Stefnt er að því að framleiða um 8.000 lítra af ís árlega en Hjördís sagðist reikna með að fyrsta árið yrði framleiðslan á milli 3 og 5.000 lítrar. Ætlunin er að selja ísinn til gistiheimila í nágrenninu auk þess sem stefnt er að því að reka sölu í gegnum bíl, sem jafnvel yrði staðsettur í Reynisfjöru en þangað leggur mikill fjöldi ferðamanna leið sína.
Að sögn Hjördísar liggur talsverð fjárfesting að baki verkefni eins og þessu. Auk ísgerðarvélarinnar hefur verið fjárfest í húsnæði og frystigeymslu. Þau hjónin fóru síðan út til Ítalíu um páskana til að læra á vélina. Hjördís hefur unnið utan heimilis sem leikskólakennari en hyggst snúa sér alfarið að ísgerðinni í framtíðinni.
Fossís er fyrsta ísgerð þessarar tegundar á Suðurlandi en annars staðar um landið hafa bændur hafið framleiðslu á ís við líkar aðstæður. Allir þeir aðilar eru hluti af samtökum Farm House Ice sem hefur samstarf um markaðssetningu og umbúðir. Að sögn Hjördísar ætla þau að reka ísgerðina á eigin forsendum sem gerir þeim kleyft að ráða sjálf markaðssetningu.