Tvö ný námskeið eru að hefjast í Jógasetrinu á Selfossi á næstu dögum; meðgöngujóga og breyttur lífsstíll.
Meðgöngujóga hefst þriðjudaginn 9. apríl en það er frábært fyrir móður og barn og góður undirbúningur fyrir fæðinguna. Kennt er á þriðjudögum en einnig boðið upp á Yoga Nidra á fimmtudögum meðan á námskeiðinu stendur.
“Margar konur sem hafa verið í meðgöngujóga hjá mér hafa sagt mér að þetta hafi hjálpað þeim mjög mikið í gegnum fæðinguna þar sem rétt öndun er lykilatriði,” sagði Rósa Traustadóttir, jógakennari, í samtali við sunnlenska.is. Námskeiðið stendur yfir í fjórar vikur.
Þann 18. apríl hefst síðan námskeiðið “Breyttur lífstíll – betri venjur – meiri orka”. Þar er farið yfir hvernig hægt er að breyta mataræðinu til hins betra.
“Þetta er einfalt, skemmtilegt og fræðandi námskeið, fjögur kvöld í góðum félagsskap og kennt tvo tíma í senn. Þarna er farið yfir markmið og leiðir að bættum lífstíl, uppskriftir og aðhald milli tíma og fleira skemmtilegt,” segir Rósa.