Flugfélagið Ernir hefur hafið útsýnisflug frá Selfossi. Flogið verður yfir Eyjafjallajökul, Heklu, Þingvelli, Gullfoss, Geysi, Þórsmörk og Landmannalaugar svo eitthvað sé nefnt og tekur flugið tæpa tvo klukkutíma.
Flogið er á litlum flugvélum sem taka fimm manns. „Þetta er Gullni hringurinn úr lofti,“ segir Ásgeir Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri, Ernis.
Flugmaðurinn er leiðsögumaður í þessum ferðum. Allir í vélinni eru með heyrnartól og geta því hlustað á og talað við leiðsögumanninn í ferðinni. „Fólk fær nýja sýn á staði sem það hefur keyrt framhjá eða staði sem það þekkir,“ segir Ásgeir.
Verkefnið er unnið í samstarfi við upplýsingamiðstöðvar, aðila í ferðaþjónustunni, eigendur gististaða á Suðurlandi og Markaðsstofu Suðurlands. Hann segir þetta gert til að bæta við afþreyingaflóruna á svæðinu.