Nokkrir skátar sem dvöldu í fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði um nýliðna helgi hafa veikst í dag. Einkennin eru þau sömu og hjá þeim sem veiktust á aðfaranótt föstudags, uppköst og niðurgangur, en staðfest var að þá væri um nóró-veiru að ræða.
„Okkur skilst að þetta sé ekki óvenjulegt við þessar aðstæður, að einkenni komi seinna fram hjá sumum en öðrum og að í kjölfarið séu líkur á einhverjum smitum til viðbótar. Það var því allt eins von á þessu,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns, en þar dvelja skátarnir.
„Við höfum búið um þá veiku í sér húsi og höfum fengið lánaða bedda frá Rauða krossinum ef ske kynni að okkur skorti rúm. Alls hafa fimm einstaklingar veikst í dag og búið er að aðskilja þá frá öðrum á meðan þetta gengur yfir. Við erum í reglulegu sambandi við heilbrigðisstarfsfólk sem stýrði hjálpinni sem við fengum um helgina og á þessu stigi er ekki litið svo á að þörf sé á frekari aðgerðum,“ segir Elín.
„Á þessum tímapunkti er ekkert sem bendir til þess að það sé eitthvað á staðnum sem veldur þessu, en nú verður allt kapp lagt á að koma í veg fyrir frekari smit á milli fólks.“