„Það er auðvitað út í hött fyrir land sem er að brjótast út úr því að vera nýlenda að gangast þá Evrópusambandinu á hönd,“ segir Josef Motzfeldt fyrrverandi utanríkisviðskiptaráðherra Grænlands í samtali við Sunnlenska.
Hann var staddur hér á landi um liðna helgi og talaði á ráðstefnu um fullveldismál sem haldin var á Hótel Sögu á laugardaginn. Daginn eftir hélt hann í stutta ferð um Suðurland þar sem blaðamaður náði tali af honum.
Grænlendingar urðu sem hérað í Danmörku hluti af Evrópusambandinu árið 1973 þó svo að mikill meirihluti landsmanna þar hafi þá kosið gegn aðild. Með heimastjórn áratug síðar gafst landsmönnum svo aftur færi á að ákveða framtíð sína í þessum efnum og þá eins og allar götur síðan var mikill meirihluti andvígur aðild. Það tók þó langan tíma að ná samningum við Evrópusambandið um úrsögn en Josef segir að nú séu allir mjög sáttir við þá stöðu sem er.
„Síðan þetta var höfum við fjarlægst Evrópusambandið. Hagsmunir okkar eru allt aðrir og það er mikill menningarlegur munur milli þessara heima. Okkar hagsmunir eru að styrkja sambandið við Noreg, Ísland og Færeyjar og það er vel skiljanlegt að þessar þjóðir skuli ekki hafa gengið í ESB. Þær eru eins og við nýfrjálsar og halda fast í það að vera herrar í sínu húsi. Þar til viðbótar koma svo hagsmunaárekstrar vegna sjávarútvegsmála.“
Josef bendir á að framundan séu breyttir tímar í Norður Atlantshafi og það reyni á að mál verði leyst með friðsamlegum og diplómatískum hætti. Til þess að svo sé geti samstaða norrænu þjóðanna á svæði skipt miklu máli.