Hið nýstofnaða eignarhaldsfélag JAE, sem er meðal annars í eigu Ingibjargar Pálmadóttur fjárfestis og eigenda útgerðarfyrirtækisins Eskju, hefur gengið frá kaupum á Hótel Selfoss.
Vísir greinir frá þessu en í frétt Vísis kemur fram að viðskiptin fela í sér kaup á rekstri og fasteignum upp á liðlega ellefu þúsund fermetra sem hýsa starfsemi félagsins.
„Við höfum mikla trú á hótelrekstri á Suðurlandi og teljum Hótel Selfoss ákaflega vel staðsett í hjarta miðbæjar Selfoss sem hefur sótt verulega í sig veðrið á undanförnum árum,“ segir Aðalsteinn Jónsson Þorsteinsson, sem fer fyrir hluthafahópnum.
Ekki fást upplýsingar um kaupverðið á Hótel Selfoss í viðskiptunum. Hótelið var í jafnri eigu þeirra Adolfs Guðmundssonar, Gunnlaugs Bogasonar, Ómars Bogasonar og Ragnars Bogasonar.
Faraldurinn setti verulegt mark sitt á rekstur félagsins á liðnu ári og nam tapið þá um 178 milljónum króna þrátt fyrir að veltan hafi tvöfaldast frá fyrra ári og verið um 508 milljónir króna. Eigið fé Hótel Selfoss var neikvætt um 476 milljónir í árslok 2021.