Nýir eigendur að Samúelsson matbar

Tómas Þóroddsson og Andri Björn Jónsson. Á myndina vantar Árna Evert Leósson. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Nýir eigendur hafa tekið við rekstri Samúelsson matbar í mathöllinni í miðbæ Selfoss. Þeir Tómas Þóroddsson, Andri Björn Jónsson og Árni Evert Leósson tóku við þann 1. júní síðastliðinn en þeir eru allir miklir reynsluboltar úr veitingageiranum.

„Mig hefur alltaf langað í pláss í mathöllinni,“ segir Tómas léttur í bragði við blaðamann sunnlenska.is þegar hann er spurður út í tildrög þess að hann sé orðinn einn af eigendum Samúelsson.

Andri segir að þegar þeir hafi frétt að Samúelsson væri til sölu þá ákváðu þeir að grípa tækifærið, enda er Samúelsson einn af vinsælustu stöðunum í mathöllinni.

„Við erum komnir með tvo nýja rétti, andasalat og nautaspjót sem hafa fengið mjög góð viðbrögð. Við erum svona hægt og rólega að bæta við nýjum réttum og fínpússa. Bráðlega verður einnig hægt að fá ostabakka með ostum sem hafa verið þróaðar og búnir til í Mjólkurbúinu á Selfossi,“ segir Andri.

Staðurinn sem selur prótein
Andri segir að þeir muni fara rólega í breytingar á matseðlinum. „Við erum með sama starfsfólkið og það er mikilvægt að eldhúsið ráði við álagið þegar það er mikið að gera. Maður hefur unnið á stöðum þar sem öllum matseðlinum var breytt á einum degi og það var bara helvíti,“ segir Andri og þeir hlæja allir. „Við stefnum á að koma með nýja rétti reglulega þangað til við erum komnir með okkar matseðil,“ bætir Árni við.

Á Samúelsson er hægt að fá kjöt- og fiskrétti ásamt vegan réttum. „Ég segi að þetta sé staðurinn sem selur prótein,“ segir Tómas og hlær. „Ef þú vilt gera vel við þig í góðra vina hópi þá er tilvalið að fara á Samúelsson. Við erum með góða kokteila og mjög flott vín,“ segir Andri.

Fish & chips vinsælasti rétturinn
Vinsælasti rétturinn á matseðli er án efa fish & chips og segja félagarnir að rétturinn sé sérlega vinsæll hjá Íslendingum – ekki bara hjá túristum. „Einn af hverjum þremur réttum sem við seljum er fish & chips,“ segir Árni.

Andri segir að sumarið hafi farið betur af stað en hann hafi búist við. „Þrátt fyrir rigningu þá er búið að vera nóg að gera. Það er mikið um túrista á virkum dögum en um helgar er mikið um Íslendinga. Á virkum kvöldum eru eru íslenskir og erlendir ferðamenn áberandi,“ segir Andri.

Margir eiga enn eftir að prófa
Þó að Samúelsson sé einn vinsælasti staðurinn í mathöllinni þá hafa ekki allir Selfyssingar smakkað matinn þar. „Það kom mér á óvart þegar við keyptum Samúelsson hvað það eru margir heimamenn sem hafa ekki prófað matinn hérna og við ætlum að breyta því, bjóða upp á spennandi rétti,“ segir Tómas.

Í tilefni af EM í fótbolta hefur risaskjá hefur verið komið fyrir á Brúartorgi í miðbænum þar sem fólki gefst kostur á að fylgjast leikjum í beinni. Félagarnir segja að tilkoma skjásins hafi aukið umferðina í mathöllinni enn frekar. „Ef það er sæmilegt veður þá hefur drykkjar- og smáréttasalan verið góð. Fólk hefur líka verið að drekkja sorgum sínum eftir leiki,“ segir Andri hlæjandi að lokum.

Fyrri greinKFR skoraði níu mörk
Næsta greinSelfyssingar sigruðu í baráttunni um Suðurlandið