Fólk með búsetu í frístundahúsum í Grímsnes- og Grafningshreppi hefur stofnað með sér íbúasamtök, sem nefnast Örugg búseta.
Nú þegar eru félagsmenn rúmlega 40 og fer hratt fjölgandi en fyrsti félagsfundur hefur verið boðaður miðvikudagskvöldið 7. september kl. 19:30 í félagsheimilinu Borg í Grímsnesi. Að sögn Heiðu Bjarkar Sturludóttur, formanns félagsins, er skilyrði fyrir skráningu í félagið að viðkomandi hafi búsetu megnið af árinu í frístundahúsi í Grímsnes- og Grafningshreppi og hafi þar sitt aðalheimili.
Sífellt vinsælla búsetuform
„Þetta búsetuform verður sífellt vinsælla og nýir tímar kalla á breytingar á lögum um lögheimili og kerfi því sem hefur verið við lýði síðustu áratugi,“ segir Heiða Björk í samtali við sunnlenska.is. „Örugg búseta mun hafa það sem sitt helsta stefnumið að fá nákvæmari skráningu á búsetu sinni hjá Þjóðskrá og hjá sveitarfélaginu. Þetta er öryggismál og mikið hagsmunamál fyrir alla.“
Samkvæmt Heiðu hafa um 40 manns í Grímsnesi kosið að færa lögheimili sitt í sveitarfélagið og eru þeir skráðir „Ótilgreint, 805 Selfossi“ hjá Þjóðskrá.
„Þeir eru þó fleiri sem eru með sitt aðalheimili í frístundahúsi en eru skráðir ranglega með lögheimili í öðru sveitarfélagi. Við erum með Facebook grúppu með yfir 50 manns og þar er fólk sem býr í frístundahúsi og hefur sitt aðalheimili og einnig fólk sem hyggur á að flytja alfarið í slíkt hús eða er að leita sér að hentugu frístundahúsi til að flytja í,“ segir Heiða Björk.
Stuðla að jákvæðri þróun nærsamfélagsins
Í lögum félagsins kemur fram að tilgangur þess er hagsmunagæsla fyrir íbúa í frístundahúsum/heilsárshúsum í GOGG sem stefna að því að fá frístundahús sitt skráð sem sitt lögformlega lögheimili, og auka þannig á öryggi fólks og bæta réttarstöðu þess sem hingað til hefur verið skráð ótilgreint í hús í GOGG. Jafnframt er tilgangur félagsins sá að stuðla að aukinni þátttöku fyrrgreindra íbúa í jákvæðri þróun nærsamfélagsins.
Félagið á fulltrúa í samráðshóp á vegum sveitarstjórnar en eingöngu er um félagasamtök að ræða og verður enginn atvinnurekstur hjá félaginu.
Félagið heldur úti heimasíðunni www.oruggbuseta.is þar sem finna má margvíslegt fræðsluefni fyrir fólk sem býr í bústöðum sínum og með leiðbeiningum um það hvernig skal skrá sig með lögheimili í sveitarfélaginu.