Nýja hringtorgið á mótum Suðurhóla, Eyravegar, Eyrabakkavegar og Hagalækjar á Selfossi fær nafnið Hagatorg.
Eigna- og veitunefnd Árborgar stóð fyrir nafnasamkeppni fyrir torgið og bárust 155 tillögur í samkeppnina. Nafnið Hagatorg fékk flest atkvæði en skammt frá torginu stóð bærinn Hagi í Sandvíkurhreppi, sem nú hefur vikið fyrir fjölbýlishúsum í Álalæk.
Margar skemmtilegar tillögur bárust í keppnina, t.d. Skífan, Fjallið og Ok. Hagatorg hlaut hins vegar 35 atkvæði.
Á síðasta nefndarfundi var dregið úr innkomnum tillögum og var nafn Böðvars Sverrissonar dregið upp úr pottinum og mun hann hljóta verðlaun fyrir tillöguna.