Nýjar merkingar settar upp

Starfsmenn Eimskips, sem gerir út Herjólf, munu setja upp merkingar í Þorlákshöfn í dag sem vísa ferðamönnum til Landeyjahafnar.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í gær er algengt að erlendir ferðamenn fari til Þorlákshafnar til þess að leita að Herjólfi. Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri Eimskips innanlands, segir að merkingar sem settar voru upp á afgreiðslunni í Þorlákshöfn hafi einhverra hluta vegna verið teknar niður.

„Það voru merkingar sem skýrðu frá því að Herjólfur sigldi milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Við létum kanna þetta í gær og þá kom í ljós að þessar merkingar voru farnar, en við vitum til þess að þær voru uppi fyrir hvítasunnu,“ sagði Guðmundur í samtali við sunnlenska.is. „Við látum að sjálfsögðu setja upp nýjar merkingar í Þorlákshöfn í dag.“

Fyrri greinStutt heimsókn til Íslands
Næsta greinVegfarendur sýni aðgát