Fyrirtækið Pró hús ehf. ætlar að byggja 15 íbúða fjölbýlishús í Þorlákshöfn að Sambyggð 14a.
Framkvæmdir hefjast í apríl og stefnt er á að afhenda íbúðirnar í júlí eða ágúst á þessu ári. Einnig er fyrirhugað að byggja þrjú raðhús með samtals níu íbúðum sem seldar verða á „áður óþekktu verði,“ eins og segir í fréttatilkynningu frá Pró húsum.
„Verðið er mun betra en það sem verið er að bjóða á Íslandi í dag á nýjum íbúðum. Það er raunhæfur möguleiki að geta boðið tveggja herbergja rúmlega 50 fermetra íbúð á 14-16 milljónir og hér er verið að tala um 100% tilbúnar íbúðir með innréttingum og tækjum. Þessi verð geta staðist ef sveitarfélög eru tilbúin að stilla verði lóða og gjalda í hóf,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
„Sveitarfélög eiga ekki að standa í lóðabraski“
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að þeir sem stjórni sveitarfélögum eigi að leita leiða til að tryggja framboð af lóðum, og eftir atvikum húsnæði, á viðráðanlegu verði rétt eins og við myndum gera með fæðu ef um væri að ræða fæðuskort.
„Sveitarfélög eiga ekki að standa í lóðabraski og alls ekki að sætta sig við framboðsvanda og okurverð á þessum nauðsynjum. Slíkt brask er ekki – eða á ekki að vera – okkar hlutverk. Okkar hlutverk er að veita þjónustu og hluti af því er að eiga gott framboð af byggingalóðum. Lóðirnar eiga því að vera á kostnaðarverði því öll álagning er í raun álagning beint á íbúa,“ segir Elliði og bætir við að hvað varðar fyrirhugaða framkvæmd Pró húsa og fleiri aðila í Ölfusi þá hafi bæjaryfirvöld lagt sig fram um að vinna með þeim að framgangi þeirra verkefna á þessum forsendum.
„Við finnum vilja bæði íbúa og fyrirtækja að færa sig úr borginni, hingað þar sem lóðir eru bæði betri og ódýrari. Þegar upp er staðið er jú ekki nema 35 mínútna akstur hér á milli og Ölfusið því í raun úthverfi Reykjavíkur þar sem í boði er sterk innrigerð svo sem gott framboð af leikskólaplássum, frábær grunnskóli, einstök íþróttaaðstaða og margt fleira. Við bíðum nú spennt eftir útspili ríkisstjórnarinnar hvað húsnæðismál varðar og vonum einlæglega að það verði í þá átt sem hér frá greinir. Sem sagt að leitað verði leiða til að bjóða gott húsnæði á hagstæðuverði,“ segir Elliði ennfremur.