Fræðslunefnd Árborgar hefur samþykkt nýjar verklagsreglur sem snúa að viðbrögðum starfsfólks grunnskóla í Árborg við verulegum frávikum nemenda frá ábyrgð og skyldum í grunnskóla.
Reglurnar taka meðal annars mið af nýlegri reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.
Verklagsreglunum er ætlað að mynda samræmt verklag í skólum sveitarfélagsins meðal annars gagnvart þeim nemendum sem víkja verulega frá ábyrgð sinni og skyldum.
Reglurnar eiga að auðvelda starfsfólki að bregðast við vanda er upp kemur hjá nemendum, svo sem vegna ástundunar, hegðunar, samskipta, skólasóknar eða neyslu vímuefna.
Þá er verklagsreglunum ætlað að skýra ábyrgð einstakra stofnana sveitarfélagsins við vinnslu mála þar sem vandi nemenda er alvarlegur og fjölþættur sem og að skapa vinnulag er tryggir skilvirka samvinnu stofnana þannig að hlutverk aðila séu skýr og markmið skilgreind.
Reglurnar má skoða á heimasíðu Árborgar.