Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi nýtt skipurit fyrir sveitarfélagið Árborg. Skipuritið mun taka gildi eftir því sem kostur er á morgun, 1. mars.
Nýju skipuriti fyrir Sveitarfélagið Árborg er ætlað að skýra hlutverk og ábyrgð og stuðla þannig að góðri stjórnsýslu, vönduðum ákvörðunum og skilvirkri framkvæmd þeirra.
Í nýju skipuriti er stjórnsýslu og rekstri skipt upp í fjögur svið og á hverju sviði er einn sviðsstjóri sem ber ábyrgð gagnvart bæjarstjóra á öllum málaflokkum sem undir sviðið heyra. Þessi svið eru stjórnsýslusvið, fjármálasvið, mannvirkja- og umhverfissvið og fjölskyldusvið.
Undir stjórnsýslusvið heyra ýmis verkefni sem hafa verið unnin á skrifstofu ráðhúss og víðar, auk þess sem skipulagsmálin falla undir þetta svið.
Verkefni félagsþjónustu og fræðslumála verða sameinuð á einu sviði til að undirstrika mikilvægi þess að þeir starfsmenn, sem koma að málefnum fjölskyldna vinni náið saman. Þetta er í samræmi við þróun sem hefur átt sér stað hérlendis á undanförnum árum sem í dag má sjá í áherslum félags- og barnamálaráðuneytis.
Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að nýja skipuritið kalli ekki á aukinn launakostnað eða mannaráðningar og ekki er þörf á að gera breytingar á fjárhagsáætlun vegna þess. Hinsvegar var á haustmánuðum m.a. samþykkt að ráða bæjarritara til stjórnsýslunnar og verkefnisstjóra á framkvæmda- og veitusvið. Þeir starfsmenn munu gegna ábyrgðarhlutverkum í nýju skipuriti ásamt því að draga úr þörfinni á aðkeyptri sérfræðiþjónustu til sveitarfélagsins.
Breytingarnar munu leiða til þess að boðleiðir styttast og einfaldast, þar sem sviðsstjórum og deildarstjórum verður færð skýrari ábyrgð og umboð til að taka ákvarðanir í samráði við sitt starfsfólk.