Nýnemar ausnir vatni

Í síðustu viku fögnuðu menntskælingar á Laugarvatni nýjum nemendum í ML með talsvert öðrum hætti en tíðkast hefur.

Í frétt á heimasíðu skólans segir að ýmsar hefðir, sem hafa tengst busavikunni, og sem hafa verið nokkuð umdeildar, hafi verið lagðar af, en í stað þeirra var unnið að breytingum sem fela í sér gjörbreytta nálgun að inntöku nýnema í samfélag nemenda.

Þó svo undanfarin ár hafi margt breyst í jákvæða átt að þessu leyti, fól móttakan í sér, að forminu til, frekar neikvæða þætti, þó svo bak við yfirborðið væri stutt í glensið og grínið.

Nú var yfirborðinu bara sleppt og þá birtist harla skemmtilegur hópur eldri nemenda sem leiddi nýnemana niður að vatni, þar sem þeir hlutu skírn, svo sem verið hefur lengur en elstu menn muna.

Fyrri greinMótvægisaðgerðir vegna Sporðöldulóns metnar
Næsta greinFyrsta hraðhleðslustöðin á Suðurlandi opnuð