Nú í ágústmánuði hefst prufukeyrsla á nýjum þurrkara hjá spónaverksmiðjunni Feng í Hveragerði. Þurrkarinn mun þrefalda afköst fyrirtækisins.
Að sögn Sigurðar Halldórssonar framkvæmdastjóra félagsins er þess vænst að þurrkarinn komi í notkun í september en tilkoma hans gæti þrefaldað framleiðslu fyrirtækisins.
,,Eftirspurnin hefur verið það mikil að við höfum ekki getað annað henni og hefur þurrkunin verið flöskuhálsinn,” sagði Sigurður í samtali við Sunnlenska. Sigurður sagði aðspurður að eftirköst vegna bruna í byrjun júní hefðu verið lítil og félagið verið komið í eðlilegan rekstur nokkrum dögum síðar.
Framleiðslugeta verksmiðjunnar hefur verið um sex þúsund tonn á ári. Hráefnið er trjákurl frá Gámaþjónustunni, sem er afurð unnin úr afsettu timbri. Fram til þessa hefur kurlið verið urðað en nú stefnir í að það verði allt nýtt í innlendan iðnað, undirburð undir hross og annan búpening.