Á hverju hausti í tengslum við Vest Norden kaupstefnuna gefur Markaðsstofa Suðurlands út veglegan kynningarbækling um Suðurland þar sem þjónusta fyrirtækja og sveitarfélaga í landshlutanum er kynnt ásamt áhugaverðum stöðum.
Núna eru fjórtán sveitarfélög og rúmlega 160 fyrirtæki á Suðurlandi aðilar að Markaðsstofunni. Bæklingurinn er gefinn út í 35.000 eintökum og er honum dreift á upplýsingamiðstöðvar um allt land og á Keflavíkurflugvöll. Í sumar var einnig gefið út aksturskort af Suðurlandi.
Útgáfa þessa bæklings er mikilvægur þáttur í kynningarstarfi fyrir Suðurland en í dag er ekki síður mikilvægt að halda úti öflugri kynningu á netinu. Markaðsstofa Suðurlands heldur úti vefsíðum ásamt því að vera með síður á Facebook og Twitter auk þess sem fyrirtækið tekur á móti átta til tíu hópum sölu- og umboðsmanna í ferðaþjónustu á ári hverju.