Undirbúningur fyrir framboð C-listans í Grímsnes- og Grafningshreppi er í fullum gangi og í kvöld kl. 20 er fundur í félagsheimilinu Borg þar sem málin verða rædd.
Það eru þeir Sverrir Sigurjónsson í Miðengi og Hörður Óli Guðmundsson í Haga sem leiða undirbúning C-listans sem fékk tvo menn kjörna í síðustu kosningum.
„Það má segja að þetta sé í raun nýr listi þar sem nær öll nöfnin á honum eru ný,“ sagði Sverrir í samtali við sunnlenska.is en hann er nú varamaður C-listans í hreppsnefnd. Núverandi fulltrúar C-listans, Gunnar Þorgeirsson í Ártanga og Hildur Magnúsdóttir á Stóru-Borg, gefa ekki kost á sér á lista í vor.
„Ég vil hvetja þá sem hafa áhuga á að vinna með okkur, hvort sem er með setu á lista eða til að koma með gagnlegar hugmyndir til að mæta á fundinn á Borg í kvöld,“ sagði Sverrir að lokum.