Nýr fimm ára samningur undirritaður

Búið er að undirrita nýjan fimm ára þjónustusamning milli Náttúrulækningafélags Íslands og Sjúkratrygginga Íslands um þverfaglega endurhæfingu fyrir sjúkratryggða einstaklinga.

„Það er mikið fagnaðarefni að þetta skuli loksins vera í höfn,“ segir Ingi Þór Jónsson, markaðsstjóri hjá Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Hann segir óvissu og erfiðu tímabili lokið fyrir starfsfólk stofnunarinnar.

Á samningstímanum bætist við þjónusta til þeirra einstaklinga sem þurfa þyngri endurhæfingu í kjölfar sjúkrahússvistar eða vegna tiltekinna sjúkdóma.

Þá verður aukin þjónusta til almennings kynnt á næstunni en ýmsir möguleikar eru í boði, s.s. heilsudvöl í lengri og skemmri tíma auk lækningatengdar ferðaþjónustu.

Ekki verður lokað fyrir hefðbundna þjónustu yfir sumartímann eins og gert var í fyrrasumar en þá var rekið hótel á stofnuninni.

Fyrri greinSjóvá opnar í Þorlákshöfn
Næsta greinLeikskólalist í Bónus