Síðastliðinn föstudag stóð stýrihópur um byggingu nýs Herjólfs fyrir kynningarfundi í Vestmannaeyjum. Á þriðja hundrað manns sóttu fundinn þar sem m.a. var farið yfir hönnunarferli nýja skipsins.
Í upphafi fundar kynnti Friðfinnur Skaftason, formaður stýrihópsins verkefni hópsins sem væri að átta sig þörfunum fyrir skipið; að setja af stað hönnun og síðan smíði skips sem sigla myndi milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Stýrihópinn skipa Andrés Sigurðsson frá Vestmannaeyjabæ, Friðfinnur Skaftason frá Innanríkisráðuneytinu, Hjörtur Emilsson, skipaverkfræðingur hjá Navis og Sigurður Áss Grétarsson starfsmaður Vegagerðarinnar. Auk þess hefur starfað með nefndinni Eiríkur Bjarnason, verkfræðingur, sem komið hefur að þessu verkefni á fyrri stigum. Þá fékk stýrihópurinn sér til ráðgjafar Jóhannes Jóhannessen, skipaverkfræðing, sem lengi hefur búið í Danmörku og unnið þar að hönnun á ferjum af margvíslegum toga.
Friðfinnur sagði það markmið hópsins að láta smíða skip sem gæti haldið uppi áreiðanlegum heilsárs samgöngum milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar, sem þýði að hanna verði skip sem geti ráðið við sem verstar aðstæður á þessari siglingaleið og að stjórnhæfni og rásfesta skipsins verði mikil.
Jóhannes Jóhannesson, skipaverkfræðingur fór yfir þá hönnun sem unnið er að. Kom fram hjá honum að skipið eigi að verða tæplega 66 metra langt eða um 5 metrum styttra Herjólfur og breidd þess verði rúmir 15 metrar sem er 1 metra mjórra skip en núverandi Herjólfur. Flutningsgeta þess eigi engu að síður að vera meiri. Stærð skipsins tæki mið af prófunum í hermi, þar sem prófaðar voru nokkrar stærðir og gerðir skipa við aðstæður í Landeyjahöfn.
Þá kom fram hjá honum að lestun og losun verði fljótlegri en í núverandi Herjólfi og því eigi það möguleika á fleiri ferðum. Við hönnunina er lagt upp með að skipið geti siglt til Landeyjahafnar í 3,5 metra ölduhæð. Miðað við öldumælingar sem fyrir liggja, þýði það að 10 dagar á ári detta alveg út og í 30 daga á ári verði einhver truflun á áætlun innan dagsins.