Um miðjan mars hóf nýr hópur nám í árlegu sex mánaða námi í landgræðslu og sjálfbærri landnýtingu við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
Að Landgræðsluskólanum standa Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðsla ríkisins, utanríkisráðuneytið og Háskóli Sameinuðu þjóðanna.
Hópurinn í ár er sá stærsti frá upphafi og aldrei hafa nemendur komið frá jafn mörgum löndum en alls eru þetta 14 manns frá átta löndum. Að þessu sinni koma nemarnir frá Eþíópíu, Ghana, Lesótó, Malaví, Mongólíu, Níger, Úganda og Úsbekistan. Mestur hluti kennslunnar fer fram í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti en nemarnir dvelja einnig drjúgan hluta sumarsins í höfuðstöðvum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti á Rangárvöllum.
Nemar Landgræðsluskólans koma frá þróunarlöndum sem standa frammi fyrir landeyðingu og eyðimerkurmyndun. Þau eru öll starfsmenn samstarfsstofnana Landgræðsluskólans í heimalöndum sínum þar sem þau vinna að landgræðslu, umhverfisstjórnun og/eða sjálfbærri landnýtingu. Samstarfsstofnanir Landgræðsluskólans eru einkum ráðuneyti, umhverfisstofnanir og héraðsstjórnir, en einnig háskólar og aðrar rannsóknarstofnanir.
Náminu líkur með kynningu á rannsóknarverkefnum sem nemarnir vinna að á meðan þeir dvelja hér á landi. Sex mánaða námið er fjármagnað af utanríkisráðuneytinu og er hluti af þróunarsamvinnu Íslands sem er ein grunnstoðin í utanríkisstefnu Íslands.