Sveitarstjórn Hrunamannahrepps telur að miklir möguleikar felist í uppbyggingu Kjalvegar og hvetur þingmenn til að veita tillögunni brautargengi.
Þetta kemur fram í ályktun sveitarstjórnar sem samþykkt var samhljóða á fundi hennar í gær. Á fundinum var lögð fram umsagnarbeiðni frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um endurnýjun vegarins yfir Kjöl með einkaframkvæmd.
„Kjalvegur sem byggður yrði upp sem heilsársvegur með fullri burðargetu gæti gjörbreytt umferð um landið og stuðlað að breytingu í byggðamynstri og uppbyggingu í hinum dreifðari byggðum. Með betri vegi sem tryggir styttri ferðatíma milli landshluta yrði til nýtt flæði milli Suðurlands og Norðurlands með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á ferðaþjónustu og atvinnulíf almennt,“ segir í ályktun sveitarstjórnar, sem vekur athygli á því að með býjum og betri Kjalvegi myndi vegalengdin milli Flúða og Akureyrar styttast um 224 km og verða tveggja og hálfs tíma ferðalag.
„Sveitarstjórn vill jafnframt minna á mikilvægi þess að veginum verði fundinn staður á besta mögulega stað og reynt verði eftir megni að sneiða hjá snjóþungum og veðurfarslega erfiðum svæðum en Bláfellsháls hefur oft verið nefndur sem farartálmi í því samhengi,“ segir ennfremur í ályktun sveitarstjórnar og þar eru alþingismenn hvattir til að veita málinu brautargengi. „Slíkt yrði farsælla en nokkrum gæti órað fyrir.“