Markaðsstofa Suðurlands hefur nú gefið út nýjan landshlutabækling helgaðan þjónustufyrirtækjum á Suðurlandi.
Þar eru skráð öll ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu, en ítarleg grein er þó eingöngu gerð fyrir þeim fyrirtækjum sem eru aðilar að Markaðsstofunni. Samskonar bæklingur er gefinn út í öllum landshlutum og virkar hann því sem eins konar lykill að þeim.
Fjöldi fyrirtækja í Markaðsstofunni fer stöðugt vaxandi en 30 ný fyrirtæki hafa bæst í hópinn frá síðustu útgáfu bæklingsins. Bæklingurinn hefur því aldrei verið stærri, fór úr 183 blaðsíðum í 227 á milli ára.
Í bæklingnum er einnig að finna upplýsingar um öll þéttbýli og sveitarfélög í landshlutanum, helstu náttúruperlur, upplýsingar um fuglalíf og hugmyndir af fjórum aksturhringjum auk ,,Gullna hringsins“ sem allir þekkja. Bæklinginn prýða margar fallegar ljósmyndir sem teknar eru á Suðurlandi. Honum er dreift í 40 þúsund eintökum á ári og má finna á öllum helstu upplýsingamiðstöðvum landsins.