Nýr meirihluti myndaður í Árborg

Fulltrúar D-listans og Á-listans tóku saman höndum með formlegum hætti í morgun. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hreinn meirihluti D-listans í Árborg er fallinn. Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri, mun starfa út kjörtímabilið sem sjálfstæður bæjarfulltrúi og hefur D-listinn myndað nýjan meirihluta með Á-listanum.

Málefnasamningur nýs meirihluta var undirritaður í morgun. Bragi Bjarnason, oddviti D-listans, tekur við sem bæjarstjóri þann 1. júní og Sveinn Ægir Birgisson, D-listanum, verður formaður bæjarráðs. Álf­heiður Eym­ars­dótt­ir, odd­viti Á-listans, verður vara­formaður bæj­ar­ráðs.

D-listinn fékk hreinan meirihluta í síðustu sveitarstjórnarkosningum, sex bæjarfulltrúa og í upphafi kjörtímabilsins var kynnt samkomulag þar sem kveðið var á um að Fjóla myndi gegna embætti bæjarstjóra í Árborg fyrri tvö ár kjörtímabilsins og að Bragi myndi taka við hinn 1. júní næstkomandi og gegna embættinu út kjörtímabilið.

„Fjóla Kristinsdóttir hefur tilkynnt bæjarfulltrúum og forystumönnum Sjálfstæðisflokksins í Árborg þá ákvörðun sína að falla frá því samkomulagi sem gert var í upphafi kjörtímabilsins og að hún muni yfirgefa meirihlutann,“ segir í tilkynningu frá D- og Á-listanum, sem send var út nú fyrir hádegi.

„Einhugur er meðal annarra bæjarfulltrúa auk forystumanna Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu að hvika ekki frá því sem samkomulagi sem gert var í upphafi kjörtímabilsins og mun Bragi Bjarnason oddviti taka við embætti bæjarstjóra eins og gert hefur verið ráð fyrir.“

Gott samstarf við Á-listann
„Á síðustu tveimur árum hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks í góðri samvinnu við starfsfólk Árborgar náð eftirtektarverðum árangri í að bæta rekstur sveitarfélagsins. Tekist hefur verið á við krefjandi skuldastöðu sveitarfélagsins af ábyrgð og festu. Mikil eining hefur ríkt meðal meirihlutans í þeirri vinnu allri og hefur verið gott samstarf við minnihlutann og þá sérstaklega bæjarmálafélagið Áfram Árborg,“ segir í tilkynningu frá oddvitum flokkanna.

„Til að bregðast við breyttum aðstæðum og til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu í Árborg og velferð íbúa hefur Áfram Árborg gengið til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og mynda þessi tveir flokkar nú traustan meirihluta í sveitarfélaginu. Forsvarsmenn Sjálfstæðisflokks og Áfram Árborgar horfa sameiginlega af ábyrgð og bjartsýni á þau krefjandi verkefni sem framundan eru og tryggja munu að Árborg eflist enn frekar sem öflugt og einstakt sveitarfélag fyrir bæði fyrirtæki og íbúa.“

Álfheiður Eymarsdóttir, oddviti Á-listans og Bragi Bjarnason, oddviti D-listans, handsala málefnasamning nýs meirihluta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSemple áfram í hamingjunni
Næsta greinSylvía Karen ráðin sveitarstjóri