Nýr samningur um Setrið

Nýr þjónustusamningur um Sérdeild Suðurlands, Setrið í Sunnulækjarskóla, var undirritaður í Ráðhúsi Árborgar í gær.

Aðilar samningsins eru Sveitarfélagið Árborg annars vegar og hins vegar félags- og skólaþjónusta Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslu og skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings.

Samkvæmt samningnum, nýjum starfsreglum fyrir deildina og með vísan til grunnskólalaga og reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla veitir Setrið nemendum með sérþarfir á Suðurlandi fjölbreytt nám í hvetjandi námsumhverfi, sem tekur mið af þörfum þeirra og stöðu, í samvinnu við heimaskóla.

Undir samninginn rituðu Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, fyrir hönd skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings og Edda G. Antonsdóttir, deildarstjóri félags- og skólaþjónustu Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslu.

Birgir Edwald, skólastjóri Sunnulækjarskóla, Kristín Björk Jóhannsdóttir, deildarstjóri Seturs og Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, voru viðstödd undirritun samningsins sem var undirritaður með fyrirvara um samþykki allra sveitarstjórna skólaþjónustusvæðanna og bæjarráðs Árborgar.

Fyrri greinGuðni kom til bjargar
Næsta greinErlingur og Ísleifur gefa ekki kost á sér