Nýr þjónustusamningur um Sérdeild Suðurlands, Setrið í Sunnulækjarskóla, var undirritaður í Ráðhúsi Árborgar í gær.
Aðilar samningsins eru Sveitarfélagið Árborg annars vegar og hins vegar félags- og skólaþjónusta Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslu og skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings.
Samkvæmt samningnum, nýjum starfsreglum fyrir deildina og með vísan til grunnskólalaga og reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla veitir Setrið nemendum með sérþarfir á Suðurlandi fjölbreytt nám í hvetjandi námsumhverfi, sem tekur mið af þörfum þeirra og stöðu, í samvinnu við heimaskóla.
Undir samninginn rituðu Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, fyrir hönd skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings og Edda G. Antonsdóttir, deildarstjóri félags- og skólaþjónustu Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslu.
Birgir Edwald, skólastjóri Sunnulækjarskóla, Kristín Björk Jóhannsdóttir, deildarstjóri Seturs og Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, voru viðstödd undirritun samningsins sem var undirritaður með fyrirvara um samþykki allra sveitarstjórna skólaþjónustusvæðanna og bæjarráðs Árborgar.