Fyrirhugað er að opna fyrir umferð um nýjan Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Kotstrandakirkju á morgun, föstudaginn 25. október.
Opnunin verður aðeins á hluta vegarins til að byrja með. Þannig verður einungis önnur akrein af tveimur í austurátt opin fyrir umferð. Við brú yfir Gljúfurholtsá, verður umferð í vesturátt hleypt á aðra af akreinunum í austur, en verður svo beint yfir á rétta akrein í vesturátt, rétt vestan við brúnna.
Á vegarkaflanum verður umferðarhraði dreginn niður í 50 km/klst á meðan á framkvæmdum stendur en þó verður, til að byrja með, hámarkshraði 30 km/klst í austurenda við Gljúfurholtsá.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að þar á bæ sé vonast til þess að vegfarendur sýni þessum hraðatakmörkunum skilning og þolinmæði. Einnig er þess óskað að farið verði eftir öllum vegamerkingum á svæðinu og er sérstök áhersla lögð á að vegfarendur fari eftir hraðatakmörkunum og fylgi öllum gátskildum.