Um mánaðamótin lét Smári Kristjánsson af starfi umdæmisstjóra VÍS á Suðurlandi eftir 25 ára þjónustu við Sunnlendinga og tekur Selfyssingurinn Rúnar Guðjónsson við keflinu.
„Það bærast auðvitað blendnar tilfinningar í brjóstinu en óneitanlega hlakka ég til að takast á við ný viðfangsefni með meiri frítíma,“ segir Smári.
„Fjölskyldan og barnabörnin munu njóta góðs af og þá er ég harðákveðinn í að leggja meiri rækt við veiðiskapinn. Ég hef náttúrlega verið viðloðandi tónlistina alla tíð og á án efa eftir að plokka strengina í meira mæli nú en allra síðustu ár. Þótt ég kveðji okkar dyggu viðskiptavini með söknuði verð ég áfram á svæðinu og á örugglega eftir að rekast á þá förnum vegi oftar en áður.“
Rúnar er borinn og barnfæddur Selfyssingur og bjó þar til 26 ára aldurs en hefur unnið hjá VÍS í Reykjavík í tæpa tvo áratugi.
„Ég hef ætíð verið með annan fótinn á æskuslóðunum þar sem mikið af mínu fólki býr á svæðinu. Ég hlakka til að endurnýja kynnin af Sunnlendingum og ekki síður að komast í kynni við aðra íbúa umdæmisins sem nú stækkar vestur yfir Reykjanes. Umdæmið spannar þar með kjördæmið allt og er víðfeðmt eftir því með 10 þjónustuskrifstofum. Ég verð mikið á ferðinni enda stórir þéttbýlisstaðir og mikilvægir viðskiptavinir í austri og vestri og allt þar á milli.“