Sveitarstjórn Mýrdalshrepps er á einu máli um að sú leið sem Vegagerðin gerir að valkosti sínum í umhverfismatsskýrslu vegna færslu hringvegarins í Mýrdalnum komi ekki til greina.
Þetta kemur fram í umsögn sem samþykkt var samhljóða í bæði skipulags- og umhverfisráði Mýrdalshrepps og í sveitarstjórn í vikunni. Þar er þeirri leið sem Vegagerðin leggur til hafnað enda sé hún ekki í neinu samræmi við markmið framkvæmdarinnar og segir sveitarstjórn að ekki komi til greina að veita framkvæmdaleyfi fyrir þeim framkvæmdum.
Sveitarstjórn einróma þrátt fyrir ólíkar áherslur framboðanna
Aðalskipulag Mýrdalshrepps 2021-2033 gerir ráð fyrir að láglendisvegur verði lagður um Mýrdal með jarðgöngum í gegnum Reynisfjall. Fulltrúar B-lista Framsóknar telja að niðurstöður umhverfismatsskýrslunnar sýni skýrt fram á að láglendisvegur með göngum sé sá kostur sem tryggi best umferðaröryggi og greiðfærni og sé sá valkostur sem uppfylli markmið framkvæmdarinnar. A-listi allra hefur á stefnuskrá sinni að núverandi þjóðvegur verði byggður upp, enda verði hann áfram keyrður óháð mögulegri færslu þjóðvegarins.
Óháð ólíkum áherslum framboðanna sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn þá er einróma niðurstaða sveitarstjórnar að sú leið sem Vegagerðin leggur nú til með færslu vegarins frá Grafarhól austur fyrir þorpið í Vík komi ekki til greina. Fyrir utan talsvert rask á umhverfi væri einnig verið að halda hringveginum í aukinni hæð um lengri kafla heldur en er í dag. Þá þverar leiðin sem Vegagerðin leggur nú til framtíðarbyggingarland þéttbýlisins í Vík.
Tilbúin í samstarf um aukið umferðaröryggi
Í umsögninni lýsir sveitarstjórn Mýrdalshrepps sig reiðubúna til samtals um útfærslur sem miða að því að auka umferðaröryggi í sveitarfélaginu þ.m.t. á veginum í gegnum Vík. Í því skyni verði skoðaðar lagfæringar á Gatnabrún og veginum þaðan að Skarphól í samræmi við hugmyndir Vegagerðarinnar en sveitarstjórn leggur áherslu á að samhliða þeim framkvæmdum verði ráðist í úrbætur til þess að bæta umferðaröryggi á veginum í gegnum Vík. Eins leggur sveitarstjórn til að skoðað verði ítarlega með hvaða hætti megi bæta greiðfærni um veginn norðan Víkur við Selhrygg.