Umhverfisstofnun hefur tekið í notkun nýja heimasíðu sem miðlar upplýsingum um loftgæði. Hlekkurinn á síðuna er loftgæði.is og já, það má nota íslenska stafi í slóðina.
Nýja síðan er mun notendavænni en sú eldri. Helsti munurinn er að strax á upphafssíðunni fæst yfirlit um loftgæði á öllum mælistöðvum á landinu.
Litakóði er notaður til að sýna ástand loftgæða á hverri mælistöð þannig að almenningur á auðveldara með að átta sig á stöðunni. Styrkur mengunarefna á hverri stöð ræður litnum á viðkomandi stöð á Íslandskortinu. Notendur geta svo með einföldum hætti skoðað nánar mæligildin fyrir viðkomandi stöð.
Þrír loftgæðamælar eru staðsettir á Suðurlandi, í Hveragerði, við Hellisheiðarvirkjun og við Nesjavallavirkjun í Grafningi.