Nýsköpun matvæla lofar góðu

Nýsköpun í matvælaframleiðslu á tómötum lofar góðu og annar fyrirtækið Úr sveitinni vart eftirspurn á grilltómatsósum og BBQ sósum sem það hefur hafið framleiðslu á.

„Við fengum hugmyndina að matvælaframleiðslunni í janúar og byrjuðum að sjóða tómata og þróa uppskriftir í eldhúsi. Við hófum samstarf við Þorleif Jóhannesson, garðyrkjubónda á Hverabakka II í Hrunamannahreppi, og fórum svo í Matarsmiðjuna á Flúðum í maí og kláruðum vöruþróunina þar,“ segir Darri Eyþórsson en hann hefur unnið að þessari vöruþróun ásamt Einari Margeir Kristinssyni.

Bæði Einar og Darri þekkja vel til matvælabransans og höfðu hug á að nýta tómata sem ekki nýttust á markaði vegna tímabundinnar offramleiðslu eða stífustu gæðakrafna.

„Við vissum af þessu fyrsta flokks hráefni og vildum nýta það sem annars færi í súginn,“ segir Darri.

Hann segir þá félagana ánægða með móttökurnar á sósunni. „Við höfum verið að selja mikið á kynningum og við leggjum jafnframt áherslu á að sýna fram á að það sé þjóðþrifamál að nýta það sem annars fer í súginn,“ segir Darri. Og frekari vöruþróun er í gangi á þeirra vegum. „Við erum nú að bíða með að fara í gang með pasta-, pizza- og salsasósur á markað.“

Fyrri greinPew bestur hjá Árborg
Næsta greinGóð stemmning í Sólheimahlaupi