Strætó bs. afhenti Brunavörnum Árnessýslu gamlan strætisvagn að gjöf í síðustu viku. Vagninn mun koma að góðum notum við æfingar, en þar verður ekki síst horft til undirbúnings fyrir stór rútuslys.
„Við höfum miklar áhyggjur af rútuumferðinni hér í Árnessýslu, en hún er gríðarleg. Við þurfum að undirbúa okkur undir að stórt slys verði og því kemur vagninn að góðum notum,“ segir Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri.
Strætisvagninn verður nýttur á æfingum í sumar, en á næsta ári er fyrirhuguð stór æfing með lögreglu og björgunvarsveitaraðilum. „Þá munum við fylla vagninn af slösuðu fólki,“ segir Kristján.
Strætó bs. tók tólf nýja vagna í notkun á síðasta ári og enn frekari endurnýjun vagnaflotans er framundan. Gamlir vagnar eru notaðir til varahluta, en Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík var afhentur vagn að gjöf í fyrra, sem einnig er nýttur til æfinga.
„Það er gott að geta gefið vagna til þeirra sem vinna jafn óeigingjarnt starf og björgunarsveitir og slökkvilið gera,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.