Nýtt app um græna kosti á Suðurlandi

Nýtt app „Grænt kort – Suður“ úr smiðju Náttúran.is er nú komið í dreifingu. Appið er ókeypist til niðurhals og tekur fyrir menningu, hagkerfi og náttúru á Suðurlandi.

Áður hefur Náttúran.is gefið út Græn kort í vef- og prentútgáfum.

Náttúran.is hefur staðið að þróun Grænna korta hérlendis síðan árið 2008 en Grænt kort – Suður er fyrsta Grænkorta appið sem Náttúran.is þróar.

Grænu kort Náttúran.is byggja á flokkunarkerfi Green Map® kerfisins sem er alþjóðlegt og notað á 900 stöðum í heiminum og gagnagrunni Grænna síðna™ Náttúrunnar sem er árangur níu ára rannsóknarvinnu á vistvænum kostum í viðskiptum og ferðamennsku á Íslandi.

Græna kortið íslenska samanstendur af yfir 150 yfirflokkum með um 4000 skráningum á 5 tungumálum; íslensku, ensku, þýsku, ítölsku og frönsku og tengist hinu gríðarlega magni af umhverfisupplýsingum og vottunartengingum sem fyrir hendi eru á vef Náttúrunnar.

Aðstandendur Náttúran.is, þau Guðrún Tryggvadóttir og Einar Bergmundur Þorbjargarson Bóasarson vona að þessi nýjung megi verða fyrsta mikilvæga skrefið til að innleiða vistvæna ferðamennsku á Íslandi, þ.e.a.s. að fólk af flestum þjóðernum hafi aðgang að ábyggilegum upplýsingum um græna kosti í viðskiptum og áhugaverða áfangastaði menningar og náttúru á Suðurlandi.
Fyrri greinLeggur rækt við list og líkama
Næsta grein„Það voru einhverjir jólatónleikar hérna“